Skólastigin tala saman

Félag dönskukennara efndi til málstofu þann 1. september s.l. í Háskólanum í Reykjavík undir yfirskriftinni Skólastigin tala saman .  Eftir að formaður félagsins, Brynja Stefánsdóttir, hafði boðið gesti velkomna, setti Mette Kjuel Nielsen, sendiherra Dana á Íslandi málstofuna. Að því loknu voru flutt tvö erindi.   Fyrra erindið, A, B og C – Ný nálgun við námsmat í grunnskólum, fluttu þær Katrín Jónsdóttir, dönskukennari í Réttarholtsskóla og Lis Ruth Klörudóttir, dönskukennari í Laugalækjarskóla.  Seinna erindið Hvað varð um  dan 103 var í höndum þeirra Brynju Stefánsdóttur, dönskukennara í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Hildar Guðrúnar Hauksdóttur, dönskukennara í Menntaskólanum í Kópavogi.  
Góður rómur var gerður að erindunum og fjölmargar spurningar kviknuðu enda um mikilvægt málefni að ræða og ljóst að margir þátttakenda höfðu ekki gert sér grein fyrir því þekkingargapi sem virðist vera á milli skólastiganna.  Þátttakendum var síðan skipt í hópa undir yfirskriftinni Hvert er okkar næsta skref? Margt gott og gagnlegt kom út úr þeirri vinnu og vinnur stjórnin nú úr þeim niðurstöðum.  Þátttakendur voru dönskukennarar af báðum skólastigum víða af landinu. Nokkrir fylgdust auk þess með í gegnum fjarfundabúnað. Málstofunni lauk með góðu spjalli á léttu nótunum.  Stjórnin stefnir að ráðstefnu á vordögum þar sem niðurstöðum málstofunnar verður fylgt eftir.

Glærur
Hvað varð um 103
A, B og C